Gegn ofbeldi!

Yfirlýsing ÍBV Íþróttafélags gegn ofbeldi

Ofbeldi er samfélagslegt vandamál. Ábyrgð á ofbeldisverki ber þó gerandinn einn. Aldrei má deila þeirri ábyrgð; hvorki á fórnarlambið né aðstæður og umhverfi. Gerandinn ber einn alla sök. Þeir sem standa að Þjóðhátíð Vestmannaeyja munu aldrei samþykkja eða þagga niður ofbeldisverk, hvort sem þau eru framin á vettvangi hátíðarinnar eða annars staðar.

ÍBV Íþróttafélag fordæmir allt ofbeldi harðlega - og eru þolendur og vitni hvött til að tilkynna um öll slík mál til lögreglu, gæsluaðila, áfallateymis, eða annarra aðila sem að málum þessum koma. Þolendur ofbeldis munu alltaf hafa fullan stuðning þeirra sem standa að Þjóðhátíð og munu hagsmunir þeirra ávallt vera í fyrirrúmi þegar kemur að viðbrögðum og úrvinnslu.

Stýrihópur Þjóðhátíðar gegn ofbeldi

Leiðarljós og stefnulýsing hópsins er eftirfarandi:

  • Að marka stefnu og koma með ábendingar um hvernig stuðla megi að fækkun ofbeldisbrota á Þjóðhátíð.
  • Aðalháherslur stýrihópsins verða að koma með tillögur að forvörnum, hvernig megi höfða til dómgreindar fólks, stuðla að vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi sem og öllu ofbeldi og hvetja Þjóðhátíðargesti til að sýna árvekni.
  • Stýrihópurinn mun einnig, í samráði við Þjóðhátíðarnefnd skoða alla þá þætti sem mögulega geta stuðlað að auknu öryggi gesta og styðst þar við ráðleggingar fagaðila, reynslu áfallateymis og lögreglu af málum undanfarinna ára og þá staðbundnu reynslu sem er af hátíðarhaldi í Vestmannaeyjum.
  • Árið 2018 fór stýrihópurinn í samstarfi við Þjóðhátíðarnefnd og Bleika fílinn í herferðina "Sofandi samþykkir ekkert".

Verum vakandi

ÍBV og Þjóhátíð í Vestmannaeyjum 2023 munu taka þátt í átaki Ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar; Verum vakandi. Merki átaksins verður áberandi og varningur merktur átakinu til sölu á hátíðarsvæðinu.

Skilaboð herferðarinnar eru skýr og einföld til allra sem málinu tengjast: Verum vakandi - er allt í góðu? Í auglýsingum, sem beint verður að fólki á djamminu og í kringum það, er það hvatt til þess að vera vakandi og að kanna aðstæður óhikað með því að spyrja einfaldlega; Er allt í góðu? ef svo reynist ekki vera á að hafa samband við 112 í síma, á vefnum eða í appinu.

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.