Um vatnsbúskap á Þjóðhátíðum fyrr og nú

 

Í Þjóðhátíðarblaði Vestmannaeyja frá 2002 er að finna skemmtilega grein sem Stuðmaðurinn og Þjóðhátíðarunnandinn Jakob Frímann Magnússon skrifaði. Í greininni rifjar Jakob Frímann upp skondin atvik frá Þjóðhátíðum, en hljómsveit allra landsmanna, Stuðmenn, hefur oft og tíðum komið fram á Þjóðhátíð og ætíð vakið mikla lukku fyrir rífandi sviðsframkomu og þá hefur hljómsveitin samið lög sem löngu eru samofin Eyjabragnum og Þjóðhátíðinni. Allir alvöru Þjóðhátíðarunnendur kannast við lög á borð við „Úti í Eyjum“, „Berum út dívanana“ og „Víst er fagur Vestmannaeyjabær“. Þá komu Stuðmenn fram á stærstu Þjóðhátíð fyrr og síðar, hátíðinni sem sló öll met er Norræna var fengin til að ferja útihátíðarþyrst ungmenni til Vestmannaeyja árið 1986.

www.dalurinn.is birtir hér smellna grein sem Jakob Frímann skrifaði eins og áður segir í Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja 2002.

-----

Stuðmenn skunda á Þjóðhátíð

Sannkallaðir Stuðmenn á Þjóðhátíð 2004.Árið 1980 ákváðu Stuðmenn að ráðast í kvikmyndagerð og tveimur árum síðar höfðum við tryggt okkur bæði leikstjóra, kvikmyndatökumann og nauðsynlegt fjármagn til að hrinda verkinu af stað. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum var strax inni í myndinni sem hinn myndræni og menningarlegi vendipunktur örlaganna í söguþræðinum, og þá lá beinast við að tryggja Stuðmönnum og Grýlum þátttöku í dagskrá Þjóðhátíðar. Það gekk fljótt og vel fyrir sig, enda nokkuð um liðið síðan hljómsveit allra landsmanna hafði þá komið fram opinberlega og eftirvæntingar áheyrenda miklar víðs vegar um landið.

Hins vegar brá svo við að Eyjamenn fengu bakþanka og ákváðu skyndilega að sleppa öllu aðkomufólki og vera þess í stað eingöngu með heimamenn í hlutverkum skemmtikrafta. Þetta kom sér afar illa, því að þegar var búið að taka upp lokaatriði myndarinnar í Kaupmannahöfn sem byggði á því að Kristni Stuð Styrkársyni Proppé (öðru nafni Stinni Stuð), hafði verið rænt sofandi úr Þjóðhátíðartjaldi Hörpu Sjafnar Hermundardóttur og honum flogið beint til gömlu herraþjóðarinnar á vit misskilinnar og mislukkaðrar heimsfrægðar í Tívolígarðinum í Köbenhavn. Nú voru góð ráð dýr, en með atfylgi hins hugumstóra þáverandi framkvæmdastjóra Félags íslenskra hljómlistarmanna, Finns Torfa Stefánssonar, sem persónulega flaug hljómsveitinni í einkavél sinni til Eyja, var sest að samningaborðum og reynt að lenda málinu farsællega. Finnur Torfi fór þar með stórt hlutverk fyrir hönd hljómsveitarinnar, en Árni Johnsen fyrir hönd Eyjamanna. Samningar tókust, að því undanskildu að Þjóðhátíðarnefndin hafnaði alfarið þátttöku Grýlanna í dagskránni sökum einhvers sem gerst hafði árinu áður er þær komu fram nýstofnaðar, hráar og svellkaldar á Þjóðhátíð 1981.

Kvikmyndataka í Herjólfsdal

Stuðmenn í sveiflu.Jafnframt var gengið frá sérstöku leyfi Stuðmönnum til handa að kvikmynda að vild á hátíðinni. Í kvikmyndinni sameinast Grýlur og Stuðmenn á sviðinu eftir sáran aðskilnað og harða samkeppni á hinu hráa svelli íslenska skemmtanaiðnaðarins. Þar sem kvikmynda þurfti það atriði á sviði fyrir framan áhorfendur, var brugðið á að gera það á fimmtudagskvöldinu áður en formleg dagskrá hæfist, en öllu jöfnu eru allmargir þegar mættir í Herjólfsdalinn á þeim tíma. Hellirigning var þetta kvöld og nokkuð hvassviðri. Það létu menn ekki aftra sér frá því að flytja lagið aftur og aftur, svo þessi eini kvikmyndatökumaður sem með okkur var gæti nálgast viðfangsefni sitt frá sem flestum sjónarhornum. Sérstakur sviðsstjóri í upptökunum var sjálfur Árni Johnsen og fangaði það strax athygli okkar að þegar æstir og gegnumblautir gestir náðu að brjóta sér leið upp á svið, tók þessi stóri og þrekvaxni maður þá einatt með annarri hendinni, lyfti þeim upp eins og kettlingum, bar þá fram á sviðsbrún og lét þá detta niður í þvöguna.

Við ákváðum strax að það væri best að egna þennan mann ekkert til reiði að óþörfu. Þannig var því hlýtt alveg möglunarlaust, þegar Árna þótti nóg komið af rennslum á einu og sama laginu þetta regnsama fimmtudagskvöld og hann gekk inn á sviðið í miðri töku og skipaði okkur að hætta. Glöggir áhorfendur geta greint Árna Johnsen í einu skoti þessa atriðis þar sem lagið „Úti í Eyjum“ er flutt af Grýlum og Stuðmönnum í fagurgrænum en rennblautum lánsbúningum frá Lúðrasveit Vestmanneyja.

Burt með þennan skúr!

Ætli Sigga Dúdda Nonna sé mætt í brekkuna?Sömuleiðis var ekki haldið uppi neinu málþófi næsta dag þegar hljóðmenn hittu Árna fyrir nokkuð þungbúinn, eftir að þeir höfðu plantað hljóblöndunarskúr í brekkuna, beint fyrir framan sviðið, til að geta stýrt hljóðeffektum og hljóðblöndun af kostgæfni samkvæmt nýjustu tækni og vísindum. „Þetta gengur engan veginn,“ sagði Árni með miklum alvöruþunga. „Nákvæmlega á þessum bletti hefur hún Sigga Dúdda Nonna setið sl. 30 ár og á því verður engin breyting. Burt með þennan skúr!“.

Hnípnir, óttaslegnir og fullir lotningar fyrir hinum sterkvaxna manni, hófu hljóðmennirnir að aftengja öll tæki sín og tól og bera út úr skúrnum. Skúrinn var síðan fluttur til um tvo metra og hafist handa við að bera inn tækin og tengja upp á nýtt. Sigga Dúdda Nonna mun hafa unað sér vel á bletti sínum, þá sem fyrr.

„Lækjarniður“ á Þjóðhátíð

Á föstudagskvöldinu höfðu Stuðmenn aðstöðu til að skipta um föt í sérstökum gámi við hliðina á sviðinu, sem að vísu vantaði gólfið í, að ekki sé minnst á salernisaðstöðuna. Salerni fyrir gesti jafnt sem skemmtikrafta voru í um 200 metra fjarlægð. Ekki rigndi þetta kvöld, en hljómsveitinni gekk hins vegar erfiðlega að finna þurran blett til að skipta um föt á, inni í gámnum, því litlar kvíslar og lækir runnu þar í gegn. Sumir okkar urðu því blautir í fæturna. Við nánari athugun reyndist mega rekja umræddar sprænur til aðframkominna Þjóðhátíðargesta sem þurftu að létta á sér og treystu sér ekki í 200 metrana en völdu þess í stað gámavegginn.

Það var ekki tekið sérstaklega alvarlega þó að skemmtikraftarnir kvörtuðu yfir þess konar smávægilegum „tittlingaskít“. Hins vegar var það tekið grafalvarlega nokkrum árum síðar þegar hinni háæruverðugu og landskunnu söngkonu óperusöngkonu Guðrúnu Á. Símonardóttur varð brátt í brók í þann mund sem hún átti að koma fram á Þjóðhátíðarsviðinu. Formaður Þjóðhátíðarnefndarinnar gerði sér strax grein fyrir að ekki þýddi að etja söngkonunni á foraðið í almenningum, og bauðst þess í stað til að skutla söngkonunni upp í nærliggjandi íþróttaheimili þar sem gæti að finna snyrtilegt vatnssalerni.

Óperusöngkonu verður brátt í brók

Heimir Hallgrímsson og Stinni Stuð í Herjólfsdal.Erfiðlega gekk að komast í gegnum fólksþvöguna að bíl formannsins og enn hægar að brjóta honum leið, enda Þjóðhátíð á suðupunkti. Loks þegar komið er í íþróttaheimilið reyndist allt vera harðlæst og formaðurinn ekki með lykilinn á sér. Nú var kominn angistarsvipur á óperusöngkonuna. Hún varð hreinlega að komast á salerni tafarlaust! „Við rennum bara heim til mín,“ segir formaðurinn afsakandi og brunar af stað, en er fljótlega aftur fastur í umferð og mannhafi á leið inn á svæðið. Eftir langa mæðu og mikinn taugatitring, að ekki sé minnst á harðorðar umkvartanir og forhneykslan óperusöngkonunnar, náði formaður til síns heima, Guðs lifandi feginn að vera kominn á farsælan leiðarenda. Honum verður litið á hina miklu óperusöngkonu í sætinu við hliðina á sér. Úr þeirri grettu sem við honum blasti mátti lesa í senn, djúpa reiði, angist og örvinglan, manneskju sem haldið hafði í sér eins lengi og mögulegt var unnt. Hann gerði sér fljótt grein fyrir því að þau höfðu náð leiðarenda – en bara og seint!

Árið eftir var búið að koma fyrir fyrsta flokks búningsherbergjum bak við sviðið ásamt fullkomnum vatnssalernum þar sem hljómsveitir allra landsmanna hlakka til að fá að létta á sér á ótöldum Þjóðhátíðum framtíðarinnar.

Jakob Frímann Magnússon

Deila á facebook